Það er alveg ljóst að stjórnmálamenn virða skoðanir þjóðarinnar að vettugi. Það hefur ekki bara sýnt sig í málefnum hælisleitenda og flóttamanna þar sem þjóðin hefur krafist þess að forgangsraðað verði í þágu Íslendinga. Krafan um leiðréttingu kjara aldraðra og öryrkja hefur verið virt að vettugi í áraraðir. Krafa fólks um sanngjarna skuldaniðurfellingu eftir hrunið var virt að vettugi. Þvert á móti var slegið skjaldborg um akfeita fjárglæframenn og svo er enn. Krafa Íslendinga um að flugvöllurinn verði staðsettur þar sem hann er núna hefur ekki bara verið hundsuð heldur hafa stjórnmálamenn markvisst unnið að því að þrengja að flugvellinum með byggingum og þjóðinni þannig gefinn „fingurinn“.

Íslenska þjóðfylkingin krefst þess að þjóðaratkvæðagreiðslur verði innleiddar í stjórnarskrána. Íslenska þjóðfylkingin krefst þess að ákvæði um stjórnlagadómstól verði einnig sett inn í stjórnarskrána þannig að allir geti leitað svara við því hvort sett lög eða lagafrumvörp standist stjórnarskrá. Einungis þannig getum þjóðin sjálf haft eitthvað um það að segja hvernig samfélagi við viljum búa í, en ekki bara þröngur hópur yfirstéttar Íslendinga sem fæddust með silfurskeið í munninum eða embættismanna sem telja sig yfir okkur hin hafna. Með þjóðaratkvæðagreiðslum komum við líka í veg fyrir að sá fámenni og háværi hópur vinstrimanna sem ræður fjölmiðlum, og gekk fjármálamönnum á hönd fyrir og eftir hrun, ráði því hvernig samfélagi við viljum búa í.

Allir núverandi stjórnmálaflokkar hafa haft uppi loforð um þjóðaratkvæðagreiðslur en með hálfum huga. Vinstriflokkarnir hafa tekið undir kröfuna um þjóðaratkvæðagreiðslur en bara vegna þess að þeir vilja breyta stjórnarskránni á þann veg að hún brjóti ekki í bága við að Ísland gangi í ESB. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í þykjustu spilað með og sennilega hefur sá flokkur minnstan áhuga á að þjóðin fái að ákveða sín örlög sjálf. Hann óttast mest að þjóðin kjósi um kvótakerfið sem hann hefur staðið dyggan vörð um.

Íslenska þjóðfylkingin hefur staðið fast á þessum kröfum. Flokkurinn mun standa fast á öðrum grunnstefnumálum eins og hækkun persónuafsláttar launafólks og afnámi tekjutenginga á aldraða, öryrkja og námsmenn. Íslenska þjóðfylkingin segir nei við ESB, nei, við Schengen, nei við EES og nei við moskum á Íslandi. Við munum ná árangri þegar fólk áttar sig á því að Íslenska þjóðfylkingin þorir og ætlar sér að hafa hagsmuni íslensks launafólks og alþýðu að leiðarljósi. Enda eru við sem stöndum að flokknum þaðan sprottin.

Helgi Helgason

Höfundur er fyrrverandi formaður Íslensku þjóðfylkingarinnar og situr nú í flokksstjórn ÍÞ.

Share This