Íslenska Þjóðfylkingin sendir inn athugasemd til Eftirlitsnefndar með störfum lögreglunnar

Erindið sent 17. janúar – Staðfesting á að erindið hafi borist nefndinni berst 6. júlí

Þann 17. janúar sendi Íslenska þjóðfylkingin inn erindi til Eftirlitsnefndar með störfum lögreglunnar. Erindið beinist að störfum Eyrúnar Eyþórsdóttur, oft nefnd manna á milli „haturslögga.“

Í Erindinu er bent á að tveimur meðlimum (sem þá voru) í flokksstjórn Íslensku þjóðfylkingarinnar var stefnt fyrir dóm að tilstuðlan Eyrúnar Eyþórsdóttur lögreglufulltrúa fyrir ummæli sem að hennar mati varðaði við brot á lögum.

Í erindi stjórnar Íslensku þjóðfylkingarinnar er bent á pólitíska fortíð lögreglufulltrúans. Eyrún hefur ekki farið í launkofa opinberlega með skoðanir sínar á þeim sem ekki eru sammála henni varðandi til dæmis þá fjölmenningarstefnu sem rekin hefur verið hér á landi í óþökk meirihluta þjóðarinnar.

Frá því að erindi flokksins var sent til eftirlitsnefndarinnar hafa mörg þessara mála verið tekin fyrir og dómur fallið í þeim. Þeir eru allir á eina leið: Sýkna.

Lögreglufulltrúinn hefur verið rekinn til baka af dómstólum með allar sínar kærur hingað til.

Erindi Íslensku þjóðfylkingarinnar er því brýnt að taka fyrir sem fyrst. Flokkurinn spyr nefndina að því hvort það geti samrýmst störfum lögreglunnar að einum starfsmanni hennar sem er þekktur vinstrimaður, rammlitaður af sterkum pólitískum skoðunum og hefur viðhaft orð sem gefa sterklega til kynna andúð hennar á skoðunum fólks sem samrýmast ekki hennar eigin, sé falið þetta vald? Er það lögreglunnar að tína út fólk sem henni finnst hafa viðhaft einhver ummæli í fjölmiðlum eða annarstaðar, flokka sem hatursummæli, og ákæra út frá sínu gildismati og skoðunum fyrir þau ummæli? Er það ríkisins að gera það? Þetta er mjög mikilvæg spurning að mati flokksins því flokkurinn telur að ef núverandi fyrirkomulag fái að standa sé vegið að grundvallar mannréttinum fólks og tjáningarfrelsi.

Íslenska þjóðfylkingin telur ekkert að því að menn séu dregnir fyrir dóm telji einhver á sig hallað í ummælum opinberlega. En það á þá að vera einkamál hvers og eins hvenær hann eða hún telur ummæli um sig ærumeiðandi og það á þá að vera einstaklingsins að ráða sér lögmann til að stefna viðkomandi fyrir dóm.

Það á ekki að vera hlutverk embættismanns á vegum ríkisins.

Þann 6. júlí fékk flokkurinn svo loksins formlega staðfestingu frá Drífu Kristínu Sigurðardóttur lögfræðingi nefndarinnar, á að erindið hefði borist eftirlitsnefndinni.

Share This