Jens G. Jensson skipar 3. sæti Íslensku þjóðfylkingarinnar til borgarstjórnar í Reykjavík skrifar:

Markaður er vettvangur, þar sem seljendur og kaupendur mætast og skiptast á vörum og þjónustum, hið mesta þarfaþing. Á árum áður, voru aðalsmenn og lénsherrar settir yfir markaði, fylgdust með máli og vog og að markaðurinn væri hvorki misnotaður af bjóðendum né kaupendum. Varðveittu jafnræði og hindruðu fákeppni.

Nú höfum við lifað við vanstjórn í tvo áratugi, markaðurinn er orðinn ótemja, sem þjónar sjálfum sér og þeim sem hafa lagt hann undir sig. Við neytendur, höfum kosið okkur eftirlitsmenn á fjögurra ára fresti, en þeir hafa misskilið sínar skyldur og þjóna ekki hagsmunum umbjóðenda sinna.

Nú á að kjósa nýja knapa. Þá er áríðandi að gera upp hug sinn, hvernig skipulag hver og einn óskar sér. Þeir sem vilja áframhald á afskiptaleysi, skortstöðu og bóluverðmætum, kjósa óbreytt ástand. Flokkana sem hafa átt sæti í Borgarstjórn, við völd, eða í minnihluta.

Þeir sem vilja leysa húsnæðisvandann með stórauknu samfélagslegu leiguhúsnæði, að langtímamarkmiði, á kostnað séreignastefnu. Stefnu sem hægt og bítandi leiguvæðir millistéttina uppúr, ættu að kjósa Sósíalista. kannski þægilegt og áhyggjulaust líf, ef þú treystir samfélaginu algerlega fyrir þinni velferð.

Þeir sem vilja blandaða leið, þar sem er viðurkennt að samfélaginu beri skylda til að sjá hinum varanlega lægst launuðu fyrir viðunandi húsnæði á viðunandi verði. Einnig samfélagslega lausn fyrir þá sem ekki vilja eiga eigin húsnæði, af lífsstíl, þrátt fyrir að tekjur leyfi. En, með aðaláherslu á hjálp til sjálfshjálpar og hvata til þeirra sem vilja byggja sér íbúðarhúsnæði. Fyrir þá er Íslenska Þjóðfylkingin eini sjáanlegi valkosturinn.

Íslenska Þjóðfylkingin, ætlar sér, að temja ótemjuna. Íslenska Þjóðfylkingin ætlar sér að koma böndum á íbúðaverð, þannig að það verði sem næst byggingakostnaði. Íslenska Þjóðfylkingin ætlar að forgangsraða lóðaúthlutun, á kostnaðarverði til einstaklinga. En, Íslenska þjóðfylkingin ætlar líka að byggja samfélagslegt íbúðarhúsnæði fyrir láglaunafólk.

Ef stefna Íslensku Þjóðfylkingarinnar nær fram að ganga, mun verða sjálfhætt, rekstri hagnaðardrifinna leigufélaga á húsnæðismarkaði í Reykjavík, hagnaðurinn mun verða undir arðsemiskröfu. Íbúðir þessara leigufélaga munu koma aftur í dreifða eignaraðild og verð á íbúðarhúsnæði mun lækka. Því lægri hlut af ráðstöfunartekjum kjósendur þurfa að nota til húsnæðis, því betra samfélagi lifum við í. Þetta á jafn við um leigu sem eignaríbúðir. Íbúðaverð og leiga eiga að vera aðgengileg fyrir um þriðjung af ráðstöfunartekjum. Húsnæðisbætur og vaxtabætur, eiga að vera undantekning, en ekki regla. En, samfélagslegur hagnaður er mestur í eignaríbúðum, þar sem eigendur binda eigið fé í sínu eigin íbúðarhúsnæði, sinna viðhaldi eigin eignar og uppbyggingu eigin fjár, sem gjarnan gengur í arf til komandi kynslóða. Þessi stefna er lífsviðhorf innan íslensku Þjóðfylkingarinnar.

 

 

Share This