Íslenska þjóðfylkingin sendi út félagsgjöld í heimabanka skráðra félaga í byrjun sumars. Það er ánægjulegt að sjá góð viðbrögð. Alveg ágætur sjóður hefur myndast sem dugar fyrir leigu á skrifstofu í nokkra mánuði en skrifstofa okkar er að Dalshrauni 5 í Hafnarfirði.  En auðvitað er það þannig að allt starf hefur verið borið uppi í sjálfboðavinnu og reikningar hafa hingað til aðallega verið greiddir af einstaklingum úr stjórn flokksins. Það hefur stappað stálinu í stjórn Íslensku þjóðfylkingarinnar að sjá hvað margir eru tilbúnir að greiða félagsgjöld. Við erum ekki að baki dottin þrátt fyrir að óvinir hafi verið mjög uppfinningarsamir við að koma höggi á flokkinn og reyna að koma í veg fyrir framboð. En versta áfallið var þegar fólk sem við töldum vera með okkur í liði reyndust úlfar í sauðagæru og reyndu að drepa hugsjón og stefnumál flokksins í einu höggi í fyrstu alþingiskosningunum sem Þjóðfylkingin tók þátt í. Engir á Íslandi, ekki einu sinni verstu óvinir Íslensku þjóðfylkingarinnar, hafa gert málstað okkar sem berjumst gegn opnum landamærum, okkar sem berjumst fyrir fullveldinu og réttlátri skiptingu auðæfa Íslands, okkar sem neitum alþjóðahyggju og skoðanakúgun, jafn mikinn skaða og þessir einstaklingar sem ákváðu daginn fyrir skilafrest á framboðum að gera allt sem í þeirra valdi stóð til að stúta Íslensku þjóðfylkingunni og þar með svala eigin egói og metnaðargirni. Enda hefur komið í ljós að þetta lið þurfti ekkert annað en flokk undir sjálft sig.

Með kæru þakklæti til ykkar sem sendið okkur jákvæð skilaboð og hafið greitt félagsgjaldið.

Helgi Helgason.

Share This