Hægri grænir, flokkur fólksins, kynnti til leiks hér á landi sem sumir muna kannske eftir og var með það á stefnuskrá sinni að skynsamlegt væri í þáverandi stöðu að nota aðferð magnbundinnar íhlutunar (enska: Quantitative Easing) til þess að leiðrétta án kostnaðar fyrir ríkissjóð að fullu hlut þeirra sem áttu vísitölubundin lán sem að urðu fyrir algjörum forsendubresti af völdum fjármálkreppunnar, sem við nefnum alltaf hrunið, enda var það það fyrir mjög marga. Flokkurinn náði ekki kjöri og ekkert varð af ráðagerðunum, en eins og allir vita að í stað þess að styðja við fólkið þá afhenti vinstri „velferðarstjórn“ VG og Samfylkingar bönkunum kröfurnar á silfurfati til þess að innheimta á fullu, en með þeirri gjörð missti þúsundafjöld heimili sín og tugþúsundir urða öreiga. Þessu má aldrei gleyma frekar en Icesave klafanum sem að sömu flokkar vildu leggja á landsmenn ofan á endalausa aðra skattheimtu, sem þeir hafa svo nýlega lýst yfir að þeir vilji auka enn meira auðvitað enn og aftur á kostnað fólksins í landinu. Má það mikilli furðu sæta að sumir styðja enn þessa og svo flokkana sem að kvörnuðust frá Samfylkingunni. Má einu skipta hvort að það sé vegna slæms minnis, karakterbrests eða forherðingar nýfélagshyggjunnar, sem að þolir ekki einkaeignir, einkarekstur og frjálst framtak og alls ekki frjálsar skoðanir, sem falla ekki að rétttrúnaðinum.  Ríkið á að vera undir forystu vinstrisins, á helst að eiga allt og ráða öllu og fólkið á að vera undir og þjóna ríkinu og embættiskommisörum þess, en ekki ríkið borgurunum. Draga á sem flesta niður í volaðið og fólkið á að eiga sem minnst svo vinstrið geti skammtað og ölmusað lýðinn að eigin valdssmekk.

 

Félagar innan Íslensku þjóðfylkingarinnar, sem að stofnuð var upp úr Hægri grænum, flokki fólksins, fara öfugt að og hafa velt þeirri hugmynd upp hvort ekki mætti nota sömu fjármálatækni eða aðferð þ.e. magnbundna íhlutun til þess að hjálpa ungu fólki að eignast sína fyrstu íbúð nú þegar svo mikil og brýn þörf er á? Með aðferðinni yrði stofnaður sérstakur lokaður sjóður innan Seðlabankans sem bankinn fjármagnaði með lánum eftir þörfum með segjum 0,1% vöxtum. Þessi sami sjóður endurlánaði svo eingöngu ungu fólki í formi venjulegra skuldabréfa (en ekki jafngreiðslulán/annuitet) á segjum t.d. 3% vöxtum án verðtryggingar eingöngu til þess að kaupa sína fyrstu íbúð til eigin afnota og það til nægilega langs tíma og stillt af við greiðslu getu til þess að viðkomandi réðu vel við dæmið. Láns- og þá veðhlutfall gæti verið allt að 100% eftir atvikum. Viðkomandi gætu svo selt íbúð sína á markaði síðar vonandi með hagnaði og nýtt sér þannig fengið eigið fé t.a.m. til þess að stækka við sig eftir þörfum og getu. Það hefur sýnt sig þar sem að aðferð magnbundinnar íhlutunar hefur verið notuð t.d. í Bandaríkjunum, Japan og víðar að slíkur sérsjóður kemst að lokum í hagnað vegna vaxtamunarins sem að rennur þá í ríkissjóð. Væri þetta ekki jákvæðara og betra en að láta ríkið drepa allt í dróma eða bönkunum og sumum óvönduðum leigusölum það eftir að hagnast ótæpilega á neyð fólksins?

 

Það er auðvitað mikilvægt að til sé nægilegt framboð af húsnæði og hugsa þarf hvernig hægt væri t.a.m. á vegum eða með aðstoð ríkis og sveitarfélaga að koma a.m.k. í fyrstu af stað helst hentugum vönduðum en hagkvæmum nýbyggingum til þess að mæta þörfinni í staðinn fyrir að hleypa þessu fé inn á þegar þröngan og uppsprengdan markað og hækka þá húsnæðisverðið enn meira en orðið er. Með því að leggja til land og lóðir til slíkra bygginga á lágu verði e.t.v. kostnaðarverði  myndu sveitarfélögin vítt og breytt fljótlega fara að eignast útsvarsgreiðandi og þá hamingjusamari íbúa og væntanlega losna við mörg kostnaðarsöm velferðarvandamál í leiðinni. Hið opinbera þyrfti aðeins að brúa bilið þangað til að nýju lánin kæmust í gagnið og borga uppbygginguna, en einhver smá álagning ætti að borga kostnaðinn við brúarsmíðina. Öll aðgerðin ætti þannig að verða hinu opinbera kostnaðarneutral hið minnsta þegar upp verði staðið.

 

Til þess að hjálpa þeim sem að nú eru á leigumarkaði mætti einnig hugsa sér til hliðar við ofangreint að stofna nýtt verkamanna eða félagsbústaðakerfi á vegum hins opinbera sem að leyfði umsamda kaupleigusamninga fyrir þá íslensku ríkisborgara sem vildu, þ.e. að viðkomandi eignuðust að lokum íbúðina með leigugreiðslum sínum. Íbúðir þyrftu að taka mið af mismunandi þörfum þ.m.t.að í boði yrðu stúdíóíbúðir fyrir láglaunaða einbúa. Fjármagna mætti kerfið með sparnaði við yfirbyggingu hins opinbera og samdrætti í ýmsum opinberum rekstri og/eða með aðferð magnbundinnar íhlutunar og/eða með því að gera lífeyrissjóðunum það að lána til verksins og mjög hóflegum kjörum. Þetta yrði sjóðunum ekki þung byrgði og gerðu þeir þjóðinni ekki betur með slíku heldur en að taka ýmsa varasama áhættu á markaði, sem þeir sjálfir þenja út og ýta upp?

 

Markmiðið með aðgerðunum væri að leysa nauðir og að gera þurfandi fólk að frjálsu og sjálfstæðu skattborgandi eignafólki.

 

Kjartan Örn Kjartansson

Höfundur er fyrrv. forstjóri

Share This