Sigurlaug Oddný Björnsdóttir fyrrv. ritari Íslensku þjóðfylkingarinnar skrifar:

Fyrir 20 árum var sjálfræðisaldur hækkaður úr 16 árum í 18 ár. Undirrituð var ein af forsvarsmönnum sjálfstæðiskvennafélags Suðurnesja, er studdi Sólveigu Þórðardóttur vegna framlagnar viðkomandi tillögu. Ein af meginforsendum var meðal annars sú hrikalega áþján er eiturlyfjaneysla var fjölskyldum þessa lands. Eðlislæg uppreisnargirni unglinga á þessu aldursskeiði fær þá til að nota allt sem þeir geta til að hrista forráðamenn af sér. Að löglega sé þeim auðveldað það með forræðissviptingu foreldra er ekki ásættanlegt.

Það að gera öllu fjölskyldulífi erfiðara um vik af eigingjörnum hvötum popúlismanns er ekki burðugt hugsanaferli. Ýmsar skyldur foreldra gætu því lagst á kerfið, sem á ekki auðvelt með að sinna þeim sem falla utan hins hefðbundna, samkvæmt flestum. Vandinn sem af þessu skapast er af þeim toga, geðsjúkdómar er ávinnast gjarnan vegna fíkniefnaneyslu, ungmenni sem falla utan samfélags hætta í skóla og álagssjúkdómar sem fylgja álagi af þessu tagi fyrir fjölskyldur og endar oft með örorku annarra fjölskyldumeðlima. Þetta vita þeir sem til þekkja. Þingmennirnir 14, í forsvari Andrés I. Jónsson, hafa nú lagt fram í annað sinn tillögu þess efnis að lækka aftur sjálfræðisaldurinn, þó í bili heiti það að lækka kosningaraldur til sveitastjórnakosninga en látið ekki blekkjast.

Undirrituð nú í stjórn Íþ er sendi álit til þings í maí 2017 vegna fyrstu tillögunnar, þeirrar sem gat um lækkun yfir línuna, þar sem við, í Íþ, upplýsum að ef þetta yrði gert þá stangaðist það á við lög um stjórnarskrá og yrði því að breyta fjölda laga áður en til kæmi. Eftir umfjöllun Alþingis hefur þessu frumvarpi verið breytt í lækkun kosningaréttar í sveitastjórnarkosningum í 16 ár og virðist þetta því brýnna mál hjá frjálshyggjufólki en réttur barna til að vera börn. Flytjendur eru að segja að þau séu tilbúin að taka yfirráð barna af foreldrum við 16 ára aldur, en þá geta þau meðal annars gert kröfu um að fá bílpróf, því þarna verða þau fulltíða einstaklingar. Auðveldari leið til að kaupa vímuefni, því foreldrar eru ekki fyrirstaða og fleira. Nú auðvitað fá flutningsmenn tillögunnar börnin með sér því þau halda að verið sé að gera þeim svo gott og það kunna áróðursmeistarar að nota sér. Þetta kallast atkvæðakaup á lágu plani, meðulin skipta ekki máli þrátt fyrir aukaverkanir.

Í Kastljósi var marg tíundað af hálfu Andrésar I. Jónssonar fyrir hönd stuðningsmanna tillögunnar að rétturinn væri barnanna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. En á hann ekki að vernda börn t.d. gegn ofbeldi og misnotkun en ekki gera þau útsett fyrir breiðari línu erfiðleika í uppvexti sínum. Flutningsmenn hefðu kannski átt að kveikja á fáeinum perum er varðar orðið börn. Það er ekki að ástæðulausu sem viðmiðið er 16 ár. Getur verið að tilgangur frjálshyggjupostulanna séu af ástæðum sem eru sjálfmiðaðri en sýnist í fyrstu? Getur verið að akkur sé fyrir suma að fjölga kjósendum sem þeir telja að hægt sé að stýra á auðveldari hátt t.d. unglingum og hælisleitendum? Þetta er spurning sem ekki hefur bara vaknað hér á landi. Er verið að misnota barnasáttmálann? Einnig bera þau fyrir sig orðrétt; „Dræm og dvínandi þátttaka ungs fólks í kosningum til löggjafarþinga og sveitarstjórna er víða staðreynd og veldur áhyggjum af framtíð lýðræðis. Þykja líkur til þess að fólk geti orðið afhuga stjórnmálaþátttöku og snúist af braut lýðræðislegrar stefnumótunar og ákvarðanatöku“.  Af því það er sterkari ástæða en lýðheilsa barna, er þá lausnin að ýta 16 ára börnum/unglingum eftir hentugleika framsetningar forráðamanna frumvarpsins hverju sinni út í kosningar?

Persónuleg skoðun mín er að orsakir lélegrar kosningaþátttöku almennt sé ekki aldur kjósenda heldur vantrú fólks á almennri skynsemi stjórnmálamanna sem og spillingu. Trú mín er að nær væri að láta þá sem ætla sér í störf þingmanna eða sveitastjórnarmanna taka próf í almennri skynsemi og siðferði.

Andrés I. Jónsson segir: “Það er hins vegar von mín að þessi breyting nái hún í gegn, veki það mikla lukku við næstu sveitarstjórnarkosningar að þingheimur sjái í hendi sér að breyta stjórnarskrá kring um næstu kosningar, svo hægt sé að lækka kosningaaldurinn yfir línuna“ Þar höfum við það! Þeim er nákvæmlega sama um afleiðingar frumvarpsins. Í komandi kosningunum eiga þá forráðamenn að fara með ungviðinu inn í kjörklefana?

Í grein í Viðskiptablaðinu segir Björn M. Ólafsson Niðurstöður úr rannsókn frá Noregi gefa ekki til kynna að niðurstöður kosninga muni breytast sérstaklega mikið við að leyfa yngra fólki að kjósa“ Íslenska þjóðfylkingin sendi Alþingi greinargerð no. 2 um þetta mál á dögunum, út frá nýju þingsályktunartillögunni. Ef þetta breytir engu eða litlu, og lækkun yfir línuna býr til fleiri vandamál í samfélaginu og allir sem áhuga hafa geta hvort eð er tekið þátt í pólitískri umræðu (ungliðahreyfingar stjórnmálaflokka) til hvers er þetta þá. Fyrst og fremst þarf að verja börn fyrir ákvarðanatöku þeirra sem teljast eiga fullorðnir, gegn því að sakleysi þeirra, friður og tími sé ekki misnotaður í þágu hentistefnu…

Share This