Íslenska þjóðfylkingin setti það í stefnu sína fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík að beita sér fyrir því að námsmenn fái frítt í strætó. Skiptir þá engu hver námsmaðurinn er eða hvaðan hann kemur. Þetta viljum við gera sem lið í því að draga úr mengum frá bílum í Reykjavík, spara gatnakerfið og ekki síst til að koma til móts við unga fólkið okkar sem margt hvert hefur ekkert allt of mikið á milli handanna. Með þessari  aðgerð getum við sem sagt slegið margar flugur í einu höggi. Nýlega átti ég leið framhjá Háskóla Íslands og reyndi að slá gróflega tölu að gamni mínu á bílana í bílastæðunum fyrir framan háskólann. Þarna voru nokkur hundruð bílar sló ég á. Ætli sé annað eins fyrir framan Háskólann í Reykjavík sem staðsettur er ekki langt frá Vatnsmýrinni. Það segir sig sjálft að ef við komum stórum hluta af skólafólki í háskólanum og framhaldsskólunum í strætó þá leggjum við mikið af mörkum til þess að leysa umferðarhnútana í Reykjavík og léttum undir með mörgum námsmönnum og fjölskyldum þeirra. Mér datt svona í hug að minnast á þetta því ég sá að frambjóðandi Framsóknar í Reykjavík slengdi þessu fram í blaðagrein. Við höfum verið að kynna þessa stefnu í framhaldsskólanum við góðar undirtektir og ef til vill hefur framsókn frétt af því. Nú verður gaman að sjá hvort fleiri flokkar hafi frétta af þessari stefnu okkar og fari að kynna hana sem sína eigin?

Guðmundur Þorleifsson skipar 1. sæti lista Íslensku þjóðfylkingarinnar í Reykjavík

Share This