Helgi HelgasonHelgi Helgason skrifar:

Nú berast fréttir af því að erlendar glæpaklíkur eru á ferðinni um Ísland – enn einu sinni. Þegar Ísland gekk í Schengen vöruðu margir við því ástandi sem nú er orðið staðreynd á Íslandi í dag. Ekki er EES skárra. Varnaðarorð komu frá fólki úr öllum flokkum íslenskra stjórnmála. Einna harðast gegn EES og Schengen samningunum barðist Hjörleifur Guttormsson þá þingmaður Alþýðubandalagsins sem nú er orðið að Samfylkingunni ásamt eftirhreytum úr gamla Alþýðuflokknum. Þetta fólk varaði við skipulögðum glæpum og að hingað til lands kæmi fólk sem við hefðum engan áhuga á að fá til okkar enda myndum tapa allri stjórn á landamærum okkar.

Þessi varnaðarorð sem höfð voru uppi fyrir rúmum 20 árum síðan hafa smátt og smátt verið að rætast. Vegna Schengen og ekki síst EES hefur mansal náð fótfestu á Íslandi. Konur eru seldar og fluttar nauðugar viljugar til Íslands í vændi. Fjórflokkurinn, Samfylking, Framsókn, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir hafa séð til þess í gegnum tíðina að fjársvelta lögregluna þannig að hún hefur lítinn mátt til að sporna gegn mansali hér á Íslandi. Það tók erlendar glæpaklíkur smá tíma að uppgötva að þær mættu færa starfsemi sína hingað til lands í boði Schengen og EES samningsins (og fjórflokksins). Upphaflega var Schengen samningurinn slæmur en nú er að koma í ljós að EES samningurinn er orðin ennþá verri. Hann gerir ráð fyrir að líta skuli á alla borgara ESB/EES sem af einni og sömu þjóðinni. Það er bannað að mismuna glæpamönnum! Glæpamenn og glæpahópar eiga að fá að athafna sig þar sem þeir vilja og ef meðlimir þeirra eru gómaðir þá gæti það skoðast sem rasismi eða mismunun að vísa þeim úr landi. Við erum jú, hluti af ESB þjóðinni í gegnum EES og megum helst ekki vísa erlendum glæpamönnum úr landi þó þeir fremji alvarlega glæpi hér, frekar en við myndum vísa íslenskum glæpamanni úr landi. EES gerir ráð fyrir að ef þú ert umsvifamikill glæpamaður í París og færð þá hugdettu að færa starfsemina til Reykjavíkur þá áttu bara rétt á því! Alveg eins og umsvifamiklum íslenskum glæbón í Reykjavík dytti það í hug að færa starfsemi sína til Akureyrar. EES lítur hvort eð er ekkert á hann sem Íslending heldur sem íbúa ESB.

Við verðum að losna við EES samninginn. Við verðum að losna við Schengen og það strax.

Íslenska þjóðfylkingin er eini íslenski stjórnmálaflokkurinn sem heitir því að segja EES samningum upp og breyta honum í fríverslunarsamning og ESB getur hirt sín lög og sínar reglugerðir til heimabrúks.

Þegar við segjum upp EES er það sjálfgefið að Schengen hverfur út í hafsauga.

Þetta er einlæg og ófrávíkjanleg stefna Íslensku þjóðfylkingarinnar.

Höfundur situr í stjórn Íslensku þjóðfylkingarinnar.

Share This