Andstaðan við EES samninginn fer vaxandi á Íslandi enda margir búnir að fá sig fullsadda af samningnum eins og andstaðan gegn 3ja orkupakkanum sýnir vel.

Þjóðfylkingin setti fram kröfu um endurskoðun EES og úrsögn úr Schengen í stefnuskrá flokksins við stofnun hans og supu þá margir EES og ESB aðdáendur hveljur eins og Guðlaugur Þór sem nú gegnir embætti utanríkisráðherra. Lýsti hann furðu sinni á stefnu Íslensku þjóðfylkingarinnar á netinu eftir að umfjöllun um kynningarfund Þjóðfylkingarinnar á Hótel Nordica á stefnu flokksins birtist í fréttum RÚV árið 2016. Þau ummæli endurspegluðu tvískinnung í forystu Sjálfstæðisflokksins til inngöngu í ESB. Þeir þykjast ekki vilja inn en vinna hörðum höndum að því að læða þjóðinni inn í ESB og loka landið þar inni umkringd tollamúr ESB gagnvart frjálsri verslun við önnur ríki í heiminum. Það eina sem fjórmenningarklíkan í forystu Sjálfstæðisflokksins á eftir að gera er að stíga skrefið til fulls og hlaupa yfir í spillta auðkýfinga -og ESB flokkinn Viðreisn. Kannski hleypur forysta Vinstri grænna með þeim yfir til Viðreisnar? Það kæmi ekki á óvart miðað við hvað Vinstri grænir sækja það fast ásamt XD að 3. orkupakkinn verði samþykktur. Hlutur framsóknar í íslenskum stjórnmálum er orðin ansi dapurlegur, hvernig hann töltir múlbundinn og þægur á eftir ESB flokkunum. Nú standa framsóknarmenn í því að böðla í gegnum þingið frumvarpi um að hrátt kjöt verði flutt inn sem fullyrt var á þeim tíma þegar að Ísland gekk í EES að myndi aldrei gerast nema með okkar samþykki. Nú hefur erlendur dómstóll, EES dómstólinn,  dæmt að við verðum að flytja inn hrátt kjöt og ekkert múður. Og íslenskir þingmenn leggja bara niður skottið. Sporin hræða. Nú er loforðið að aldrei verði lagður sæstrengur nema að við viljum það! Hvað gerist svo í framtíðinni þegar við fáum á okkur dóm um að við verðum að leggja sæstreng? Auðvitað munu þingmenn leggja niður skottið. Og þetta er vandamálið. Við getum ekki treyst Alþingi fyrir fullveldi þjóðarinnar og við getum ekki treyst Alþingi yfirleitt fyrir einu eða neinu. Þess vegna er Þjóðfylkingin líka með kröfu í stefnuskrá sinni um beint lýðræði og stjórnlagadómstól sem allur almenningur getur leitað til í viðleitni til að hafa hemil á landsölu fólkinu á Alþingi.

Meðal stuðningsmanna X-E (Þjóðfylkingarinnar) á fésbók má nú sjá fleiri og fleiri velta upp þeirri hugmynd að nauðsynlegt sé að stofna grasrótarhreyfingu í anda Brexit. Orð eins og EESXit eða EESXis hafa skotið upp kollinum sem nafn á slíka hreyfingu sem væri þverpólitísk.

Share This