Hjördís D. Bech Ásgeirsdóttir er félagsliði og skipar 2. sæti á lista Íslensku þjóðfylkingarinnar í Reykjavík.

Vilja ekki allir eiga kost á því að eiga gott og öruggt ævikvöld á síðari hluta ævinnar? Er þetta einhver spurning sem við þurfum að velta fyrir okkur, jú sennilega þurfum við að gera það í ljósi þess í hvaða sæti elsta kynslóðin hefur verið sett í fram til dagsins í dag.

Þegar við komum að þeim tímapunkti í lífi okkar að við finnum fyrir vanmætti okkar í daglegu lífi, getan að minnka og við þurfum aðstoð við hin almennu störf og jafnvel við grunnþarfir okkar. Sumir upplifa það að lífsgæði þeirra minnki, sökum einangrunar heima fyrir og eru háðir aðstoð frá ættingjum. Þessi upplifun er skelfileg fyrir flest alla og oft erfitt að takast á við. Það að missa hluta af sjálfstæði sínu er erfitt að höndla. Þá komum við að þeirri spurningu, hvernig yngri kynslóðin getur komið að þessum tímamótum svo vel sé, til þess að foreldrar okkar, afar og ömmur geti lifað með reisn, stolti, öryggi og hamingju.

Nauðsynlegt er að fjölga hjúkrunar- og dvalarheimilum þar sem biðlisti eftir því að flytja á nýtt heimili þar sem umönnun gesta (starfsmanna) er innifalin er allt of langur og þungur í vöfum.

Gamli Landspítalinn við Hringbraut væri kjörin sem hjúkrunar- og dvalarheimili og litlar breytingar þyrfti að gera þar. (Byggja upp Landspítalann við Fossvog og nýta lóðina á bak við fyrir háar spítalabyggingar.)

Það á ekki að hafa afdrifaríkar afleiðingar að verða gamall/gömul.

Það þarf hugarfarsbreytingu í þjóðfélaginu, breyta menningu og viðhorfi fólks. Gleymum því ekki að við erum gestir á heimili þeirra. Til þess að þau geti lifað með reisn og líði vel og finni sig heima á sínu nýja heimili þá er nauðsynlegt að skilningur þeirra á daglegum þörfum í lífi þeirra sé óhindraður. Því er mjög brýnt að það fólk sem vinnur við umönnunarstörf tali íslensku og hafi þekkingu á bakgrunni og menningu þess og hafi sótt námskeið í því, samhliða námskeiði við umönnun aldraða.

Nauðsynlegt er að nægt starfsfólk sé í umönnunarstörfum til að hafa tíma til að njóta þess að hlusta, spjalla o.fl. Félagsleg næring, hlýja, knús og kærleikur er okkur öllum nauðsynleg óháð aldri. Það er flestum nauðsynlegt að hafa eitthvað fyrir stafni, því þarf að hafa í huga hluta af EDEN stefnunni á öllum Dvalar- og hjúkrunarheimilum. Eins og betra aðgengi og fjölbreyttara tómstundaval.

Við þurfum að hækka laun þeirra sem eru í umönnunarstörfum svo hægt sé að fá fleira starfsfólk að starfa með öldruðum. Engin virðing hefur verið borin fyrir þessu göfuga starfi. Af þeim ástæðum má ætla að launin séu svona lág sem raun ber vitni.

Gleymum því ekki þegar talað er um virðingu gagnvart elstu kynslóðinni þá hefur virðingin ekkert vægi ef hún er ekki sýnd í verki. Þetta er án efa þyngstu skref sem við öll tökum í lokin. Það er engin virðing falin í því að hafa eingöngu tíma til þess að sinna grunnþörfum, ef allt annað vantar og sálarlífið í molum.

Share This