Þjóðfylkingin hefur ávallt hafnað ofbeldi. Þjóðfylkingin hefur ávallt hvatt til tjáningar -og skoðanafrelsis. 

Árás sem gerð var á bifreið borgarstjórans í Reykjavík er ömurleg og fordæmir stjórn Íslensku þjóðfylkingarinnar hana harðlega.

Við vekjum athygli á furðulegum orðum formanns Vinstri-grænna, hvað sem hún átti við með þeim orðum, að skotárásin hafi ekki komið henni á óvart! 

Skotárás á bifreið borgarstjóra Reykjavíkur kemur formanni Vinstri-grænna ekki á óvart!?

Við viljum líka nota tækifærið og vekja athygli á tvískinnungi og hræsni sem virðist nú fara eins og eldur um sinu í fjölmiðlum og málflutningi vinstrimanna af þessu tilefni.

Það er sú staðreynd að þeir sem hafa hæst nú, og tala um umburðarlyndi og hófstillta umræðu, eru þeir sömu og hafa ekki skafið af sér í árásum á Þjóðfylkinguna frá stofnun hennar árið 2016. Vinstrimenn.

Hinni nýju kynslóð vinstrimanna kemur ekki á óvart að árás með skotvopni hafi verið gerð á bíl Borgarstjórans í Reykjavík. Það kemur okkur í Þjóðfylkingunni ekki á óvart að vinstrimenn skuli vera opnir fyrir ofbeldi. Það er eðli þeirra. 

Bæði forystu fólk og venjulegir liðmenn Þjóðfylkingarinnar hafa orðið fyrir aðkasti og hótunum, á netinu sérstaklega, og þar hafa vinstrimenn ekki sparað stóru orðin og hótanir. 

Svo langt var gengið að vinstra fólk sendi pósta á fólk sem var skráð á fésbók flokksins sem er opin öllum og hafði í hótunum og var í einhverjum tilvikum talað um að vitað væri hvar þeir sem væru vinir á fésbókinni okkar ættu heima. Um það fengum við vitneskju frá því fólki.

Svoleiðis hótanir byrjuðu strax árið sem Þjóðfylkingin var stofnuð. 

Flest allir í stjórn flokksins hafa fengið beinar og óbeinar hótanir um limlestingar og aftöku. Formaður flokksins fékk símhringingu þar sem honum var hótað lífláti.

Eitt sérlega alvarlegt atvik viljum við nefna. Einstaklingur sem var mjög virkur í starfi sínu fyrir flokkinn var sérstaklega tekinn fyrir. Maki hans er af erlendum uppruna og fékk félagi okkar skilaboð í pósti að farið yrði í það koma málum þannig fyrir að maki hans fengi ekki landvistarleyfi hér á landi. Þetta fékk svo á viðkomandi og fjölskyldu hans að þessi einstaklingur dró sig alveg út úr stjórnmálum og lokaði samfélagsmiðlareikningum sínum.

Alvarlegt mál? 

Ekki í augum vinstrimanna enda allt leyfilegt gagnvart félögum í þjóðfylkingunni að þeirra mati.

Þá skiptir húðlitur engu máli, þá skiptir kyn engu máli, þá skiptir trú engu máli. Þá skiptir engu máli hvort þú ert kona eða maður eða hvorugt. Hugarfar vinstri manna hér sem annarstaðar í heiminum er sjúkt. Tilgangurinn helgar meðalið.

Við erum ekki í nokkrum vafa um að þeir sem stóðu að þessari aðför að félaga okkar er sama fólkið og nú rekur upp ramakvein yfir máli borgarstjórans.

Fjölmiðlar eru ekki undanskyldir í talsmáta sem er á þann veg að gæti hæglega kveikt hugmyndir andstæðinga um að beita ofbeldi gegn flokksmönnum okkar. Þar má nefna forystugreinar í Fréttablaðinu, fréttir þeirra og aðra pistla.

Nú kemur þetta mál upp með borgarstjórann og vinstrimenn eru slegnir. Fólkið sem hefur róið öllum árum að því að búa til ótta og óöryggi í íslensku þjóðfélagi með árásum á alla þá sem ekki eru samferða þeim í hugmyndafræðinni, þetta vinstra fólk er nú skyndilega slegið miklum heilagleika sem er ekkert annað en hræsni og popúlismi.

Sé það gefið að árásin á bíl borgarstjórans sé af pólitískum toga og þá hægt að tala um eitthvert ástand í þjóðfélaginu, þá er það eitt um það að segja  – að vinstrimenn hafa sjálfir búið það ástand til.

Nú segjast þeir ekki vilja búa í svoleiðis þjóðfélagi og það viljum við ekki heldur. Nú tala þeir um að hófstilla umræðuna. Í þeirra huga á það bara við um aðra, ekki þá sjálfa. Vinstrimenn hafa beitt sér fyrir þöggun og reyna að banna umræðu um til dæmis málefni hælisleitenda og fátækt íslenskra fjölskyldna nema að sú umræða sé í takt við þeirra málflutning. Ef svo er ekki, nota þeir öll þau meðul sem þeir geta til að ráðast persónulega að fólki og dæmin sýna líka að þeir eru tilbúnir til að fá fólk rekið úr vinnu fyrir að tjá skoðanir sínar. Þá eru þeir alveg örugglega líka tilbúnir til að ráðast að heimilum andstæðinga. Það er bara tímaspursmál hvenær þeir gera það fyrir opnum tjöldum.

Sé árásin á bíl borgarstjóra af pólitískum toga er það vissulega áhyggjuefni. En það er líka áhyggjuefni hvernig Samfylkingin og vinstri armurinn á Íslandi virðist ætla að nota tækifærið til þess að notfæra sér atburðinn í pólitískum og popúlistískum tilgangi. Nú er bent á Vigdísi Hauksdóttur og hún nánast sökuð um að hafa stuðlað eða hvatt til árásarinnar á borgarstjórann sem er auðvitað í anda vinstri manna og ótrúlega ósvífið. Svoleiðis málflutningur er hræsni. Miðflokkurinn er líka greinilega í skotfæri hjá Samfylkingunni og fylgihnöttum þeirra í þessu máli og kemur það ekki á óvart. 

Við í Þjóðfylkingunni fordæmum allt ofbeldi sama að hverjum það beinist. En af ástæðum sem hér hafa meðal annars verið reifaðar þá erum við ekki sannfærð um að hugur fylgi máli þegar vinstrimenn segjast fordæma ofbeldi. 

Það byggjum við af langri reynslu af árásum, svívirðingum af þeirra hálfu og hótunum í okkar garð frá þeim og fylgihnöttum þeirra.

En þeir skulu vita það að þeir munu aldrei þagga niður í okkur.

Share This