Í dag er svartur dagur fyrir íslenska þjóð. 46 alþingismenn sviku þjóðina í hendur erlends og innlends auðvalds með samþykkt landráðapakkans sem nefndur er Orkupakki 3 og jafnframt brutu þeir stjórnarskrá lýðveldisins með samþykktinni. Ekki í fyrsta skipti og ekki í það síðasta.

Umræður um þá tilgátu að einhverjir þessara þingmanna hafi fengið greitt fyrir atkvæðið gerast æ háværari.

Enda svíkur fólk varla land sitt og þjóð nema fyrir pening?

Hitt er ljóst að sumir þingmenn seldu okkur með glöðu geði og er þar átt við ESB sinna í auðmanna flokknum Viðreisn og sósíalistanna í Samfylkingu. Þetta er allt sama fólkið og ætlaði að selja okkur með Icesave samningunum. Vart þarf að minnast á hlut VG í því máli, hvernig Steingrímur J. og Katrín létu fleygja þúsundum íslenskra fjölskyldna á götuna til að friða ESB og erlenda glæpamenn – svo kallaða hrægammasjóði. Því verður heldur ekki gleymt hvernig fjórmenningarklíkan sem stjórnar Sjálfstæðisflokknum gekk landsölumönnum á hönd í Icesave-málinu undir það síðasta. Sú forysta hefur opinberað sig sem algjöra apaketti í Orkupakka málinu. Oft er sagt að af aurum verði menn apar en af seðlum górillur og á það sennilega vel við um þá þingmenn sem seldu okkur í atkvæðagreiðslunni í dag.

Í dag stigu margar górillur á þingi í pontu og sögðu „já“.

Það er alveg ljóst að þessi ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar verður lengi í minnum höfð fyrir landráðin og bleyðuskapinn í dag. 

Ljósa hliðin er að andstaðan við EES mun magnast

Við í Þjóðfylkingunni höfum sagt að það sé einn ljós punktur við þann gjörning sem átti sér stað á Alþingi í dag. Hann er nefnilega sá að þegar afleiðingar orkupakkans fara að koma við buddu hins almenna borgara mun brjótast út mikil reiði meðal landsmanna. Andstaða við EES samninginn mun magnast svo að það verður léttara fyrir þá sem vilja segja honum upp að tala fyrir uppsögn.

Þjóðfylkinginn hefur haft það á stefnuskrá sinni frá upphafi að aldrei verði lagður sæstrengur úr landi á forsendum ESB og flokkurinn hefur krafist endurskoðunnar eða uppsagnar á EES náist ekki samningur um endurskoðun þar sem samningnum verði breytt í fríverslunarsamning en ESB getur hirt sitt reglugerðar bull. Uppsögn á Schengen er forgangsatriði.

Eina leiðin til að koma hér aftur á virku lýðræði er að innleiða þjóðaratkvæðagreiðslur og stjórnlagadómstól. Öðruvísi virðist ekki vera hægt að hafa hemil á landsölu fólkinu á Alþingi. Það er á stefnuskrá Íslensku þjóðfylkingarinnar.

Share This