Stjórn Íslensku þjóðfylkingarinnar hefur tekið til umsagnar, á fundi sínum 04.01,2018, frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, með síðari breytingum (kosningaaldur) að beiðni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

Stjórnin telur að yfirlýstur tilgangur frumvarpsins um lækkun kosningaaldurs sé ótímabær. Jafnframt telur stjórn flokksins að lækkun kosningaaldurs sé ekki svarið við minnkandi þátttöku almennings í lýðræðisríkjum í þingkosningum eins flutningsmenn frumvarpsins virðast telja.

Þátttaka í lýðræðislegum kosningum á Vesturlöndum fór minnkandi eftir því sem leið á 20. öldina og fram til dagsins í dag. Fræðimenn hafa sett fram ýmsar skýringar eins og Francis Fukuyama[1] sem kennir velferðarþjóðfélaginu um eða Rbert D. Putnam[2] sem færir rök fyrir því að þátttaka almennings í stjórnmálum hafi minnkað vegna áhrifa sjónvarpsins. Ef skoðaðar eru umræður (t.d. kommamentakerfum) fólks við fréttum af stjórnmálum, hvort sem það er hér á Íslandi eða í erlendum miðlum, má greinilega sjá að mjög margir lýsa yfir vantrausti á stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka almennt.

Það er okkar skoðun að stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar á Vesturlöndum, meðal annars hér á Íslandi, hafi á síðustu áratugum hegðað sér á þann hátt að almenningur ber ekki lengur traust til þeirra.

Svarið við þessu vantrausti er ekki að gera börn að kjósendum heldur að innleiða íbúalýðræði á sveitarstjórnarstiginu og þjóðaratkvæðagreiðslur á landsvísu. Deilurnar um hvort innanlandsflugvöllur eigi að vera þar sem hann er nú staðsettur eða hvort flytja eigi flugvöllinn annað er gott dæmi um hvernig stjórnmálamenn hunsa vilja kjósenda. Þrátt fyrir að allar skoðanakannanir sýni að meirihluti kjósenda í Reykjavík vill flugvöllinn áfram og áskoranir 70 þúsund kjósenda þess efnis að flugvöllurinn eigi að vera þar sem hann er nú, hafa stjórnmálamenn ekki hlustað. Á þessu eru kjósendur þreyttir.

Þjóðaratkvæðagreiðslurnar um Icesave málið er gott dæmi um hvernig almenningur ætti að koma að mikilvægum ákvörðunum um þjóðarhag en þátttaka í þeim kosningum var um 63% í fyrra sinni og um 75% í seinna sinni.

Eins og áður segir telur Íslenska þjóðfylkingin það ekki svar við minnkandi kjörsókn að gera börn að kjósendum. Slík aðgerð sýnir á hinn bóginn afneitum stjórnmálamanna á því sem raunverulega er að. Stjórn Þjóðfylkingarinnar telur að kosningasvik hinna rótgrónu íslensu stjórnmálaflokka og klækjastjórnmál á undanförnum árum sé ein af ástæðum skorts á trausti til stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna. Benda má á nýleg mál sem orðið hafa tveim síðustu ríkisstjórnum að falli og hafa ekki aukið traust kjósenda á stjórnmálamönnum, stjórnmálaflokkum eða íslenskri stjórnsýslu.

Hugmyndir íslenskra stjórnmálamanna um að gera börn að kjósendum eru því í bestafalli smjörklípa til að beina umræðunni í annan farveg, en þann að þeir sem eiga mesta sök á minnkandi kjörsókn eru stjórnmálamenn sjálfir og spillingin sem umleikur þá og flokka þeirra. Umræðuna um íbúalýðræði vilja þeir fyrir alla muni ekki taka, hvað þá að hrinda henni í framkvæmd, vegna hræðslu við vilja fólksins.

Að framsögðu lýsir stjórn Íslensku þjóðfylkingarinnar þeirri skoðun sinni að leiðin til að bæta lýðræðið og kosningaþátttöku er að efla beint bindandi lýðræði og gera þannig stjórnmálamenn snertanlega oftar en bara á fjögurra ára fresti.

Svarið er ekki að gera 16 ára börn nýkomin úr grunnskóla að kjósendum. Þau munu hvort eð er á endanum verða fyrir vonbrigðum eins og allir aðrir kjósendur og hætta að mæta á kjörstað.

 

(sign)

Stjórn Íslensku þjóðfylkingarinnar.

[1] https://fukuyama.stanford.edu

 

[2] https://en.wikipedia.org/wiki/Robert_D._Putnam

Share This