Fréttir hafa borist af því að nefnd sem skipuð er fulltrúum allra þingflokka vinni nú að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Það vekur upp hjá manni ugg að lesa að eitt af því sem mest er rætt er heimild til framsals valdaheimilda, væntanlega í þeim tilgangi að Ísland geti gengið í ESB og hægt sé að innleiða skipanir frá Brussel, sem í núverandi stjórnarskrá eru margar hverjar stjórnarskrárbrot að margra áliti. Að mínu áliti verður innleiðing þriðja orkupakka ESB, ef af verður, forleikur að lagningu rafmagnssæstrengs úr landi. Verði orkupakkinn innleiddur verður hann eins og vírus sem liggur í dvala og mun spretta fram þegar rafmagnssæstrengur verður lagður úr landi og allt vald yfir raforkugeiranum mun færast til eins búrókrata í Brussel. Því verður að vera búið að breyta stjórnarskránni þegar að því kemur. Í frétt á mbl.is í dag segir og haft er eftir Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra:

„Auðlinda-og umhverfismál hafa verið mest rædd, sem og framsal valdaheimilda og þjóðaratkvæðagreiðsla, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.“

Við skulum halda því til haga að forseti Alþingis og sú sem er nú forsætisráðherra stóðu fyrir og eru úr flokki sem eiga Íslandsmet í kosningasvikum þegar þau stóðu að umsókn til Brussel um að Ísland gangi í ESB þvert á kosningaloforð. En gjaldið fyrir þann farmiða endurspeglaðist í því að hrægammasjóðum voru afhentir bankarnir og þúsundir íslenskra alþýðuheimila og fjölskyldum var fleygt á götuna í nafni fyrstu hreinu vinstristjórnarinnar á Íslandi.

Önnur mál sem minnst er á eru öll ágæt og góð og gild, en verða þau bara gulrót til að fá almenning til að samþykkja trójuhestinn? Gefum okkur að það verði þjóðaratkvæðagreiðsla um breytingar á stjórnarskrá. Þá skiptir öllu máli hvernig fólki verður leyft að kjósa um málið. Gætu lýðskrumsflokkarnir, gamli fjórflokkurinn, sett málið upp á þann veg að kjósa yrði um allt eða ekkert? Það er að segja að fjögur til fimm falleg mál sem allir vilja, yrðu sett í forgrunninn eins og til dæmis þjóðaratkvæðagreiðslur. Hver vill ekki þjóðaratkvæðagreiðslur? Reyndar má búast við að þær yrðu mjög takmarkaðar eins og til dæmis tillögur stjórnlagaráðs gerðu ráð fyrir. Í þeim tillögum hefðum við ekki getað kosið um Icesave. Ég trúi öllu upp á lýðskrumsflokkanna. Til dæmis að lagður yrði í þjóðaratkvæði einn pakki um breytingu á stjórnarskrá sem þarf að samþykkja allan en ekki yrði gefin kostur á að kjósa um hvert ákvæði fyrir sig. Það er tilefni til að vera á varðbergi gagnvart því hvernig lýðskrumsflokkarnir fara fram með boðaðar breytingar á stjórnarskránni til að fá þær samþykktar.

Þar verða blekkingar örugglega reyndar til að fá íslendinga til að samþykkja fullveldisframsal til ESB sem erfitt verður að ná til baka, samanber raunir Breta.

Að lokum: Við í Íslensku þjóðfylkingunni erum með tillögur um hvaða breytingu á að gera á stjórnarskránni núverandi og hún lítur að því að leyfa fólkinu að ráða. Við viljum gera tvær breytingar á stjórnarskránni enda teljum við að núverandi stjórnarskrá sé mjög góð að öðru leiti. Við viljum innleiða bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur og líta til Sviss varðandi það en við viljum líka setja inn ákvæði um stjórnlagadómstól sem allir þegnar landsins geta leitað til og spurt hann hvort, til dæmis, lagafrumvarp eða sett lög standist stjórnarskrá. Ef svoleiðis dómstóll væri við lýði gæti hver sem er spurt hvort EES eða Schengen samningurinn standist stjórnarskrá. En það er einmitt ekki það sem lýðskrumsflokkarnir vilja. Því þá verða ákvarðanir stjórnmálamanna snertanlegar oftar en bara einu sinni á fjögur ára fresti og hinn venjulegi Íslendingur hefur eitthvað að segja um hvernig þjóðfélagi við viljum búa í og hvernig eigi að skipta þeim gæðum sem Ísland hefur yfir að ráða. Og það vilja þeir sko örugglega ekki!

Höfundur: Helgi Helgason, situr í stjórn Íslensku þjóðfylkingarinnar.

Share This